Tag Archives: hundabúr

Að nota búr

Undanfarið hefur verið mikil umræða um það hvort rétt sé að venja hunda á búr og hvort það ætti hreinlega að banna notkun búra. Ég er sjálf hlynnt búrnotkun sé það gert á réttan hátt en hver hundaeigandi ákveður það hvort hann vilji nota búr, það er ekki alltaf sem búr henta. Hér eru nokkrir góðir kostir þess að nota búr, alls ekki tæmandi listi en gott að spá í svona hlutum þegar maður tekur þessa ákvörðun. Ef nota á búr, er það gríðarlega mikilvægt að venja hundinn á búrið á réttan hátt, þannig að hundurinn tengi það við jákvæða reynslu og það verði hans griðarstaður.


Þegar hvolpur er nýkominn á heimilið kann hann ekki (í flestum tilfellum) að sinna sínum þörfum úti við. Við tekur þjálfun við að gera hvolpinn húshreinan og þar getur búrið hjálpað gífurlega. Ef hvolpurinn er farinn að sjá búrið sitt sem griðarstað, sem sitt svæði, þá vill hann helst ekki pissa/kúka þar og vill frekar fara út úr búrinu til að sinna þörfum sínum. Þannig er hægt að nota búrið sem hjálpartæki í því að húsvenja hunda, þ.e. ef þú getur ekki fylgst með honum í þessa stund sem hann er í búrinu og hleypir honum svo strax út þegar hann sýnir þér að hann þurfi að losa. Þó skal hafa í huga að ef ekkert eftirlit er til staðar getur hundurinn gripið til þess örþrifaráðs að pissa í búrið því hann hreinlega getur ekki haldið í sér og þess vegna verður alltaf að hafa eftirlit með ungum hvolpum. 

Annað með hvolpana að þegar þeir eru að kanna heiminn þá gera þeir það með kjaftinum líkt og mannabörnin. Svo fara þeir að missa tennur og klæjar svakalega í góminn – og naga þá jafnvel stólfætur og skó, okkur til mikillar gleði. Búrið getur líka hjálpað í þessum aðstæðum og kemur í veg fyrir að hvolpurinn nagi eitthvað sem getur verið jafnvel hættulegt fyrir hann. Ég tek það fram að ég er alls ekki að meina að það eigi að geyma hvolpinn bara í búrinu, heldur er hægt að nota það sem aðstoðartæki þegar þú þarft t.d. að hoppa í sturtu og enginn annar er heima til að fylgjast með hvolpinum. Það er ekki hægt að nota búrið á þennan hátt ef hundinum líður illa í búrinu og þá þarf að venja hann betur á búrið fyrst.

Hundar með hegðunarvandamál geta leitað í búrið sitt ef þeim líður illa í aðstæðunum og vilja öryggi búrsins frekar. Hvað meina ég með þessu? Jú ef hundar eru mjög stressaðir í ákveðnum aðstæðum, t.d. margir gestir heima / stressaðir einn heima, þá getur góð tenging í búrinu skipt sköpum.
Dæmi: Vinur, gamli hundurinn minn, varð mjög stressaður þegar ég fékk marga gesti í heimsókn og honum leið ekki vel þegar hann var frammi með öllum. Eftir nokkrar tilraunir ákvað ég að athuga hvort hann vildi frekar vera í friði í búrinu sínu með nammi og honum leið miklu betur þar. Því gerði ég það þegar ég átti von á mörgum gestum (t.d. afmælisveisla) þá setti ég hann í búrið sitt með fyllt Kong inni í herbergi áður en gestirnir komu, svo var hann bara rólegur þar allan tímann. Hann var það rólegur að sumir gestanna vissu ekki einu sinni að ég ætti hund, því það heyrðist ekkert í honum, hann var bara rólegur með nammið sitt í búrinu í ró og friði. Svo þegar gestirnir voru farnir (eða fáir eftir) hleypti ég honum út og við gerðum eitthvað skemmtilegt saman. 

Mjög sniðugt ef mörg börn eru á heimilinu og hundurinn fær kannski ekki mjög mikinn frið (mjög algengt), að hafa þá búrið á rólegum stað og hafa það alltaf aðgengilegt. Þá er mikilvægt að hafa það að strangri reglu að börnin mega ekki trufla hundinn þegar hann er í búrinu (jafnvel þó það sé opið) svo að hann geti fengið frið þar ef hann vill það. Við verðum að passa að hundarnir fái pásu frá okkur, alveg eins og við þurfum stundum pásu frá þeim. Við viljum að hundurinn fái frið á sínum griðarstað og fái þar aukið öryggi og líði vel.

Búr geta líka auðveldað málið gífurlega þegar hundurinn þarf að fara í pössun annars staðar. Ef hundurinn er vanur því að sofa í búrinu sínu og það er hans griðarstaður, er minna mál að setja hann í pössun þar sem hann tekur “herbergið sitt” með sér. Ef hundurinn er vanur því að sofa t.d. uppí rúmi eiganda síns, þá getur verið meira vesen að passa hann því hann myndi þá annað hvort heimta að sofa uppí hjá þeim sem passar, eða hreinlega ekki vilja fara að sofa því það vantar aðalatriðið – eigandann. 

Bílferðir eru talsvert öruggari ef hundurinn er í búri í bílnum. Það þarf þó sérstaklega að venja þá á það að vera í búri í bíl en flestir finna fyrir meira öryggi í búri heldur en ef þeir eru í beltum í bílnum. Búrin passa okkur mannfólkið betur í árekstri líka, þ.e. við högg getur hundurinn farið á flug í bílnum rétt eins og aðrir lausamunir og jafnvel slegist í okkur, aftan á sæti ökumanns og þess háttar. Ef hann er í föstu búri þá helst hann innan búrsins, svo lengi sem búrið er traust og öruggt. 


LYKILATRIÐI í því að nota búrið rétt er að hundinum líði vel í búrinu. Það þarf því að búrvenja rétt og passa að hundurinn tengi jákvæða hluti við búrið sitt, t.d. nammi, slökun og öryggi. Byrjaðu á byrjuninni, ekki henda hundinum bara inní búr og vona það besta heldur gerðu þetta á jákvæðan hátt svo að hann fari að leita í búrið sjálfur. 

Höfundur: Birta Ýr Baldursdóttir, hundaatferlisfræðingur.